Tesla og rafbílavæðingin
Ævintýralegt ris hlutabréfaverðs í Teslu hefur ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með fjármálamörkuðum. Bréfin hafa nífaldast í verði á einu ári og gert stofnandann Elon Musk að einum ríkasta manni heims.
Margt bendir til þess að um bólumyndun sé að ræða. Tesla er nú verðmætara en Toyota og Volkswagen samanlagt þrátt fyrir að síðarnefndu félögin selji 60 sinnum fleiri bíla og skili fjárfestum 15-földu sjóðsstreymi.
En burt séð frá hlutabréfaverðinu þá virðist framtíð Teslu björt. Fyrirtækið er eini framleiðandinn sem hefur aukið bílasölu á árinu, viðskiptavinirnir mælast ánægðastir allra og bílarnir hafa hlotið fjölmörg verðlaun fyrir hönnun, aksturseiginleika og öryggi.
Tesla hefur nýtt sér greitt aðgengi að fjármagni og byggir nú þrjár bílaverksmiðjur í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum. Stærstum hluta framleiðslugetunnar verður beint í smájeppa sem kallast Model Y. Smájeppar eru ein eftirsóttasta bílategund heims og 40% af bílum sem seldir eru í Evrópu tilheyra þeim flokki.
Á Íslandi nýtur Tesla mikilla vinsælda. Fólksbíllinn þeirra, Model 3, er mest seldi bíll landsins á þessu ári með um 450 nýskráningar. Fyrirtækið hefur opnað söluskrifstofu auk tveggja hleðslustöðva og fjórar til viðbótar eru áformaðar. Þegar Model Y kemur af færibandinu á næsta ári má því ætla að vinsældirnar aukist.
Stefna stjórnvalda um orkuskipti vegur hér eflaust þungt. Rafbílar bera ekki virðisaukaskatt upp að 6,5 m.kr. og hafa því meðgjöf í samkeppni við eldsneytisbíla. Um 18% nýskráninga hérlendis á árinu eru rafbílar. Hlutfallið mun vafalítið hækka eftir því sem fleiri framleiðendur bætast við og hleðslustöðvum fjölgar.
Tesla er táknmynd þess að rafbílar eru orðnir að raunverulegum valkosti fyrir neytendur. Fyrir örfáum árum hljómaði eins og vísindaskáldskapur að hljóðlausir rafbílar myndu keyra um göturnar, en nú er það orðið daglegt brauð.