Um heimsendi og handþvott
Viðbrögð við kórónaveirunni minna á heimsendabíómynd. Fólk er læst inni á hótelum og í skemmtiferðaskipum, nauðsynjavörur klárast í búðum, íþróttaleikir fara fram á tómum leikvöngum og hlutabréfaverð hríðfellur.
Fyrst hugsaði ég að þessi viðbrögð væru yfirdrifin. En eftir því sem fréttunum fjölgaði vildi ég kanna hversu alvarlegur þessi faraldur væri í raun og veru. Lítið hefur verið um tölfræði í umræðunni, en eftir grams á netinu fann ég nokkra hluti sem gefa hugmynd um hættuna.
Veiran virðist dreifast auðveldlega á milli manna. Ein rannsókn áætlar að smithættan sé tvöföld á við flensu. Ítalía er ágætt dæmi um þetta. Sá sem greindist fyrstur þar kom sjálfur veikur inn á spítala. Með því að rekja ferðir hans fundu yfirvöld yfir 100 tilfelli í viðbót.
Vandinn við að greina ný tilfelli skýrir einnig þessa háu tölu á Ítalíu. Sá sem smitast er einkennalaus fyrstu 2 til 14 eða jafnvel 24 dagana. Og þegar einkennin koma fram eru þau svipuð kvefi eða flensu, sem gerir greiningar enn erfiðari.
Loks er skaðsemin mikil. Dánartíðni þeirra sem greinast með kórónaveiruna er áætluð um 1-3%, sem er allt að tuttugufalt hærra en hjá þeim sem fá flensu. Um 18% þeirra sem sýkjast fá alvarleg einkenni, en þeir sem lifa þau af geta setið uppi með varanlegar lungnaskemmdir.
Ungu og heilsuhraustu fólki stafar mun minni hætta af veirunni. En aðrir eru í enn meiri hættu og geta ekki fengið bólusetningu líkt og fyrir inflúensu þar sem ekkert bóluefni er til.
Faraldurinn er á fyrstu stigum og þessar tölur eru ennþá á reiki. En það er að minnsta kosti tímabært að fylgjast vel með þróuninni - og þvo sér aðeins oftar um hendurnar.