Björn Brynjúlfur

Hugbúnaður er að borða heiminn

Þessi tilvitnun í fjárfestinn Marc Andreessen hefur sjaldan átt betur við en í dag. Á sama tíma á kórónuveiran hefur leitt til efnahagssamdráttar og lækkunar á hlutabréfaverði virðast tæknifyrirtæki vera ónæm fyrir áhrifum hennar.

Þar fremst í flokki fara fjórmenningarnir Google, Amazon, Apple og Facebook. Hlutabréf þeirra hafa öll hækkað umtalsvert á árinu og eru þau nú metin á um fimm trilljónir bandaríkjadala.

Tekjur Amazon jukust um 40% á árinu og hagnaður tvöfaldaðist þar sem mun fleiri versla nú á netinu. Apple jók einnig tekjur sínar þrátt fyrir að hafa þurft að loka búðum mánuðum saman. Þá jukust tekjur Facebook þótt margir auglýsendur séu að sniðganga fyrirtækið. Og að tekjur Google hafi staðið í stað má teljast afrek út af fyrir þegar fjölmörg fyrirtæki hafa dregið saman seglin.

Stærð fjórmenninganna er nú slík að yfirvöld rannsaka þau nú fyrir að hafa óeðlileg áhrif á samkeppni. Von er á málssókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins gegn Google og rannsókn stendur yfir á Facebook, Apple og Amazon fyrir samkeppnishamlandi hegðun. Forstjórar félaganna hafa mætt fyrir þingnefnd á síðustu dögum og svarað þar ásökunum um hamlandi áhrif á samkeppni.

Yfirvöld í Evrópu eru á sömu vegferð. Þar eru ný lög í smíðum sem er sérstaklega beint að þessum fyrirtækjum með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á samkeppni, til dæmis með hærri sektum auk heimilda til að stöðva tiltekna starfsemi þeirra og neyða þau til að opna hugbúnað sinn gagnvart samkeppnisaðilum.

Vöxtur tæknifyrirtækja virðist kominn til að vera, en útkoma þessara mála mun ráða miklu um hvort fjórmenningarnir leiði þann vöxt áfram eða aðrir taki við.