Nýtum og njótum frídaganna
Jólin í ár eru góð fyrir vinnandi fólk þar sem frídagarnir eru allir á virkum dögum. Fríið verður þó brotakennt því það er í miðjum vinnuvikum: aðfangadagur er á þriðjudegi og fyrsti vinnudagur eftir jól á föstudegi. Þriðjudaginn eftir er gamlársdagur og fyrsti vinnudagur á nýju ári verður á fimmtudegi.
Í fullkomnum heimi myndu jól og áramót vera upp við helgar. Slíkt er þó varla raunhæft. Það væri til dæmis undarlegt að fagna nýju ári á miðnætti þann 2. janúar 2020 til þess eins að fá langa helgi.
En þetta á ekki við um alla frídaga. Á Íslandi væri hægt að færa fjóra frídaga að helgum: sumardaginn fyrsta, uppstigningardag, verkalýðsdaginn og þjóðhátíðardaginn. Fyrri dagarnir tveir eru í dag alltaf á fimmtudögum, og seinni tveir á mismunandi dögum milli ára. Betra væri að færa alla fjóra daga yfir á nærliggjandi föstudaga.
Breytingin hefði lítil áhrif á vinnuveitendur: næsta áratug myndi fjöldi frídaga aukast úr 11,9 dögum upp í 12,5 daga á ári að meðaltali, eða um 5%. Á móti myndi sundurslitnum vinnuvikum fækka um tvær til fjórar á ári. Þá væri hærra hlutfall frídaga á föstudögum, en stór hluti þeirra fer í föstudagskaffið hvort eð er.
Fyrir launþega væri breytingin hins vegar töluverð: fjöldi langra helga myndi aukast úr 4,7 upp í 8,2, eða um 75%. Það munar um minna en að fá tvær til fjórar langar helgar til viðbótar árlega; allir kæmu betur úthvíldir í vinnuna og nýtingarhlutföll sumarbústaða og tjaldvagna myndu rjúka upp.
Önnur lönd hafa þennan háttinn á, svo sem Bretland og Bandaríkin. Við ættum að fara sömu leið og njóta þannig betur bæði vinnunnar og frísins.