Björn Brynjúlfur

Drengir í vanda

Árlega ljúka 700 drengir grunnskólanámi án þess að vera þokkalega læsir. Þeir eiga erfitt með að para myndir og setningar og skilja skriflegar leiðbeiningar ekki nógu vel til að fylgja þeim. Þriðjungur fimmtán ára drengja er í þessari stöðu í dag. Hlutfallið er tvöfalt hærra en hjá stúlkum og hefur farið hækkandi síðustu ár.

Afleiðingar þessa koma greinilega fram á efri stigum menntakerfisins. Þrír af hverjum tíu drengjum hætta í framhaldsskóla án þess að ljúka námi og einungis þriðjungur brautskrifaðra úr háskólum eru karlar.

Aðrar birtingarmyndir eru ekki jafn sýnilegar eða koma fram síðar. Þeir sem hafa takmarkaðan lesskilning glíma frekar við slæma andlega og líkamlega heilsu, tekjur þeirra eru lægri og traust og samkennd gagnvart öðrum minni. Raunar hefur skortur á læsi svo mikið spágildi um gengi í lífinu að stjórnvöld hafa notað hann til að áætla framtíðarþörf fyrir fangelsi.

Slæm staða drengja er stærsta vandamál íslensks samfélags í dag. Síðustu ár hafa þúsundir einstaklinga lokið grunnskóla sem munu eiga erfitt uppdráttar í lífinu. Afleiðingarnar eru alvarlegar og margvíslegar; fyrir drengina sjálfa og fyrir samfélagið allt.

Orsakaþættirnir eru margir en eflaust vegur þungt að grunnskólar taka ekki tillit til líffræðilegs munar á kynjunum. Heilar stúlkna eru um ári á undan í þroska þar til 16-18 ára aldri er náð og áhugasvið drengja og stúlkna eru ólík. Kerfi sem gerir sömu kröfur til allra óháð eiginleikum er illa hannað.

Íslenskt grunnskólakerfi virkar einfaldlega ekki. Það hefur brugðist stórum hluta drengja og staðan versnar á hverju ári. Úrbætur einstakra kennara eða skóla hafa lítil áhrif, því vandinn er kerfislægur. Tímabært er að hugsa grunnskólamenntun upp á nýtt og smíða kerfi sem skilar árangri fyrir öll börn - óháð kyni.