Hin ónæmu
Á sama tíma og ljós birtist við enda Covid-ganganna í formi bóluefnis eykst skaðsemi núverandi ástands stöðugt. Yfir tuttugu þúsund manns voru atvinnulaus í október, sem er mesta atvinnuleysi sem mælst hefur á Íslandi.
Atvinnuleysi eyðileggur fjárhag fólks, veldur streitu, dregur úr sjálfstrausti, eykur líkur á andlegum sjúkdómum eins og þunglyndi og kvíða og grefur undan líkamlegri heilsu. Öll þessi áhrif versna og verða langvinnari eftir því sem tíminn líður.
Þau sem enn hafa vinnu eða eru í námi eru heldur ekki undanskilin. Þar má til dæmis nefna heilsutap vegna skorts á hreyfingu, andlega kvilla vegna félagslegrar einangrunar og skertan félagsþroska barna og ungmenna.
Ef núverandi ástand varir mikið lengur munu þúsundir koma stórlöskuð út úr faraldrinum þegar hjarðónæmi er loksins náð. Það ætti því að vera í efsta forgangi að koma hlutunum í eðlilegra horf í millitíðinni.
Eitt sem við getum gert er að undanskilja þau sem eru ónæm frá samkomubanni. Þetta myndi strax auka frelsi þeirra tæplega sex þúsunda sem þegar hafa fengið veiruna, en þurfa samt að fylgja almennum reglum um sóttvarnir.
Þetta fyrirkomulag hefur þegar verið tekið upp erlendis. Mörg flugfélög bjóða nú upp á að skanna QR-kóða í öppum farþega sem tengjast gagnagrunnum heilbrigðisyfirvalda og staðfesta ónæmi. Stjórnvöld geta leyft ónæmum hérlendis að nota slíkan kóða til að fara ferða sinna að vild.
Breytingin myndi skila betri árangri en tilraunin með undanþágu ónæmra frá grímuskyldu. Fyrirtæki sem vilja fleiri viðskiptavini munu fljótt bjóðast til að skanna slíka kóða, sérstaklega þegar hópurinn stækkar samhliða bólusetningum.
Við ættum að grípa öll tækifæri sem draga úr skaðsemi núverandi ástands. Ofangreind hugmynd er eitt dæmi um slíkt og vonandi bætast fleiri við á næstunni.